Arnarnesvogur er fjölbreytilegri en flestir vogar á höfuðborgarsvæðinu. Kemur þar margt til. Gálgahraun flæðir inn í hann að suðvestan og óvenjuleg fjara tekur við af hrauninu sunnan hans. Vogurinn er víður eða um 1,6 km á breidd en benda má á að breidd Kópavogs er aðeins hálfur km. Glæsileg einbýlishúsabyggð er á Arnarnesi norðaustan vogsins. Útsýni í norður yfir byggð og fjallhring er í senn vítt og vinalegt. Mjög lítil alda nær inn á voginn og Hraunsholt veitir skjól fyrir landssynningi.

Deiliskipulag svæðisins hefur nú verið samþykkt. Um er að ræða lága byggð sem félli vel inn í landslagið , enda er það aðalauðkenni Garðarbæjar, sem eðlilegt er að virða. Hugmynd sú sem hér er framsett felur í sér að hverfið verði aðallega byggt meðfram sjávarsíðunni.

Uppfylling og kví sem nú eru á staðnum verði framlengd út í voginn og mynduð lítil bátahöfn í skjóli nýja tangans sem við það myndast. Á tanganum verður til fallegt byggingarland, þar sem rísa mun hluti hins nýja hverfis, en þaðan má njóta stórkostlegs útsýnis til allra átta.

Meginhluti bygginga verður íbúðir, en einnig verða í hverfinu dagheimili, leik- og sparkvellir auk verslunar og hvers konar þjónustu.

Fjaran vestan megin í voginum verður að sjálfsögðu óhreyfð og opin öllum íbúum bæjarins. Nýja strandlengjan, sem mótuð verður, og að sjálfsögðu höfnin og torg hennar verða opin almenningi. Á torginu mætti gjarnan standa söluturn eða önnur smáþjónusta.

Bílastæðum yrði komið þannig fyrir að um 2/3 þeirra yrðu í bílageymslum undir húsum en hin meðfram götum og þar til hönnuðum aðkeyrslum. Þannig yrði tryggt að íbúðir og umhverfi væru í háum gæðaflokki. Garðar sem sýndir eru á myndum yrðu lokaðir fyrir bílum og er íbúum þar með búið rólegt og umhverfisvænt útivistarsvæði auk fagurs umhverfis.

Fögur íbúðarbyggð í Arnarnesvogi mun styrkja ímynd Garðabæjar, tengja byggðina betur saman og treysta enn betur miðbæjarsvæðið og þar með bæjarlífið.

Image

Image